Fréttir


2.5.2023

Skipulagsgátt er farin í loftið

Haustið 2021 voru gerðar breytingar á skipulagslögum og sett ákvæði í ný lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem gera ráð fyrir smíði og rekstri Skipulagsgáttar, landfræðilegrar gagna- og samráðsgáttar um skipulag, umhverfismat og framkvæmdir.

Nú hefur Skipulagsgáttin verið tekin til notkunar og er opin almenningi.

Hvað er Skipulagsgátt?

Skipulagsgátt er nýjung við skipulagsgerð, umhverfismat og framkvæmdaleyfisveitingar og er tilgangur hennar að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum þátttöku og auðvelda aðgengi að gögnum. Í gáttinni verða aðgengileg á einum stað allar skipulagstillögur, umhverfismat og framkvæmdaleyfi sem eru í kynningu og að loknu lögbundnu samþykktarferli.

Öllum er frjálst að gera athugasemdir við mál sem þar eru á kynningartíma þeirra. Jafnframt er mögulegt að gerast áskrifandi og fá tilkynningar um ný mál eða uppfærslur mála sem birt eru í gáttinni, eftir gerð þeirra eða staðsetningu.

Skipulagsgáttin er opin frá 1. maí

Skipulagsgáttin opnaði 1. maí og hafa fyrstu mál til kynningar þegar birst í gáttinni. Maímánuður verður nýttur til innleiðingar, kynningar og fræðslu en frá 1. júní munu öll mál sem varða skipulagsáætlanir, umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfa verða birt þar.

Kynning og fræðsla

Í lok apríl voru haldnir kynningarfundir með starfsmönnum sveitarfélaga og umsagnaraðila og í maí verður haldið áfram með kynningar á Skipulagsgátt og þjálfun fyrir notendur hennar.

Opinn kynningarfundur um Skipulagsgátt verður haldinn þann 16. maí. Nánari tilhögun fundarins verður auglýst síðar.

Ertu með fyrirspurn?

Hafir þú fyrirspurn um Skipulagsgátt er tekið á móti þeim í gegnum netfangið skipulagsgatt@skipulag.is.

 

https://skipulagsgatt.is/

https://skipulagsgátt.is/