Fréttir


12.11.2021

Skipulag fyrir nýja tíma

Ávarp forstjóra Skipulagsstofnunar, Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur á Skipulagsdeginum 12. nóvember 2021.

Í ár fögnum við 100 ára afmæli íslenska skipulagskerfisins. Þótt íslenskt samfélag hafi verið fámennt og í mörgu tilliti frumstætt á fyrstu árum síðustu aldar og skipulagsviðfangsefnin einföld samanborið við daginn í dag, hafði hópur framsýns fólks á þeim tíma skilning á að það skiptir máli hvernig byggt umhverfi er mótað og land er nýtt. Og jafnframt skilning á mikilvægi þess að hafa sýn um þróun byggðar til langs tíma inn í framtíðina og að setja þyrfti regluverk um skipulagsgerð.

Árið 1921 samþykkti Alþingi fyrstu lög um skipulagsmál sem mæltu fyrir um að vinna skyldi skipulag fyrir kauptún og sjávarþorp með 500 íbúa og fleiri, þar sem lagðar væru línur um vöxt og viðgang viðkomandi staðar til næstu 50 ára.

Í ár er tilefni til að nýta þessi skipulagslegu aldahvörf ekki eingöngu til að líta yfir farinn veg, heldur ekki síður til að horfa til framtíðar.

Skipulagshugmyndir fortíðar og framtíðar

Það er merkileg tilviljun, eða kannski ekki, að um sömu mundir og bændur hér upp á Íslandi ræddu um mótun fyrstu skipulagslaganna og um að hefja vinnu að framtíðarskipulagi íslenskra bæja í kringum 1920, þá voru menn úti í Evrópu að leggja á ráðin um nýja hreyfingu um skipulag, hönnun og listir, Bauhaus-hreyfinguna.

Nú hefur Evrópusambandið, rétt rúmum hundrað árum frá stofnun upphaflega Bauhaus-skólans, sett af stað nýtt átak sem kallað er New European Bauhaus. Þetta nýja Bauhaus-átak er hugsað sem vettvangur fyrir þróun hugmynda og nálgunar í skipulagi og hönnun byggðs umhverfis fyrir 21. öldina, sem hefur sjálfbærni og hringrásarhugsun að leiðarljósi, en jafnframt sérstaka áherslu á fagurfræði og vellíðan.

Burðarviðir skipulags fyrir framtíðina

En hverjir eru mikilvægustu burðarviðir góðs skipulags fyrir nýja tíma? Farsæl tök á skipulagsmálum fyrir framtíðina eru háð mörgum breytum. Meðal þeirra helstu eru sjálft skipulagskerfið sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og -reglugerð og segir til um hverjir fara með ábyrgð á skipulagsmálum, með hverskonar stjórntækjum og hvernig að mótun skipulagsákvarðana er staðið. En skipulagskerfið og stjórntækin ná litlum slagkrafti ef ekki er til staðar faglegur styrkur og færni í skipulagsgerð og hönnun, jafnt hjá opinberum aðilum sem ráðgjöfum og hönnuðum. Þá skiptir líka öllu fyrir farsæla framkvæmd skipulagsmála að för ráði skýr pólitísk sýn og áherslur valdhafa hverju sinni. Og einnig skiptir upplýst og vönduð samfélagsumræða og fjölmiðlun miklu fyrir farsæla mótun byggðar.

Skipulagsmál eru loftslagsmál

Allra stærsta breytan á næstu árum og áratugum er þó og verður loftslagsógnin. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikið lykilstjórntæki skipulagsgerð er í loftslagsmálum. Þær ákvarðanir sem við tökum í skipulagi um staðsetningu og tilhögun byggðar, samgöngur og ferðamáta, orkunýtingu og ráðstöfun lands í dreifbýli til fæðuframleiðslu, votlendisverndar og skógræktar ræður miklu um það hvernig kolefnisspor íslensks samfélags þróast til framtíðar. En skipulagið þarf líka að búa okkur undir breyttan heim og tryggja að byggð og samfélag sé búið undir þær umhverfis- og samfélagsbreytingar sem leiða munu af loftslagsbreytingum og hækkun hitastigs.

Stjórnkerfi skipulagsmála og áherslur næstu ár

Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður í kjölfar Alþingiskosninga í september síðastliðnum. Það hefur ekki farið leynt að rætt er um hugsanlega tilfærslu skipulagsmála milli ráðuneyta, mögulega í nýtt innviðaráðuneyti og þá helst nefnt mikilvægi þess að sameina í eitt og sama ráðuneyti skipulagsmál, húsnæðismál og sveitarstjórnarmál.

Skipulagsmál eru ekki síst mikilvægur, spennandi og flókinn málaflokkur fyrir þær sakir að þau hafa mikla og mikilvæga snertifleti við meira og minna alla aðra málaflokka sem stjórnarráðið fer með. Það er því engin ein sjálfgefin staðsetning skipulagsmála í stjórnarráðinu, heldur þarf hún að ráðast af helstu viðfangsefnum skipulagsmála í viðkomandi samfélagi og pólitískum áherslum á hverjum tíma.

Hvar sem skipulagsmálum verður valinn staður í þeirri ríkisstjórn sem við væntum að verði tilkynnt um á næstu dögum, er aðalatriðið það, að vel verði búið að þessum mikilvæga málaflokki, hvort sem það varðar skipulagsgerð á landi eða hafi, og hvort sem það varðar sjálfa skipulagsgerðina eða áhrifamatið sem fram fer við mótun skipulags og undirbúning framkvæmda.

Rétt eins og fyrir hundrað árum, þegar forverar okkar stóðu að smíði fyrstu skipulagslöggjafarinnar og upphafi formlegrar skipulagsgerðar hér á landi og fólk úti í Evrópu stofnaði Bauhaus-hreyfinguna, er núna tími til að vera metnaðarfullur – hugsa til framtíðar og búa sem best að skipulagsmálum þannig að þau geti náð sem mestum og bestum slagkrafti í þágu samfélags og atvinnulífs almennt, og alveg sérstaklega í þágu gæða hins byggða umhverfis, velsældar, jöfnuðar, lýðheilsu, landslagsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og ekki síst kolefnishlutleysis og aðlögunar.