Fréttir


  • Stakksberg, þrívíddarmynd

6.1.2022

Kísilverksmiðja Stakksbergs í Helguvík, Reykjanesbæ

Mat á umhverfisáhrifum – álit Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðju Stakksbergs ehf. í Helguvík, Reykjanesbæ. Álitið og matsskýrsla Stakksbergs eru aðgengileg hér . 

Áformuð framkvæmd

Stakksberg ehf. áformar endurbætur á kísilverksmiðju í Helguvík sem rekin var af Sameinuðu Sílikoni hf. frá nóvember 2016 þar til reksturinn var stöðvaður af Umhverfisstofnun í september 2017 vegna lyktarmengunar og óþæginda sem rakin voru til óstöðugleika í rekstri á ljósbogaofni verksmiðjunnar.

Í 1. áfanga fyrirhugaðrar framkvæmdar er gert ráð fyrir endurbótum á mannvirkjum sem reist voru af Sameinuðu Sílikoni hf. til framleiðslu á 25.000 tonnum af kísli á ári með einum ljósbogaofni. Endurbótunum, sem bæði eru tæknilegar og rekstrarlegar, er ætlað að tryggja meiri stöðugleika í rekstri ofna og stuðla að bættum loftgæðum og minni lyktarmengun samanborið við fyrri rekstrartíma. Meðal annars er nú áformað að losa útblástur um háan skorstein í stað þess að losa útblástur um rjáfur síuhúss, eins og gert var á fyrri rekstrartíma. Síðari áfangar fela í sér stækkun verksmiðjunnar í allt að 100.000 tonna ársframleiðslu í fjórum ofnum.

Umhverfisáhrif

Loftgæði og lyktarmengun

Að mati Skipulagsstofnunar eru áformaðar endurbætur í rekstri og búnaði verksmiðjunnar líklegar til að fækka þeim tilvikum þegar stöðva þarf ofna og stytta þann tíma sem ofnar keyra á skertu afli. Það er lykilatriði varðandi áhrif rekstrarins á loftgæði og lyktarmengun. Þá eru áform um að losa útblástur um skorsteina líkleg til að leiða til betri dreifingar útblástursefna, sem hefur einnig þýðingu í þessu tilliti.

Stakksberg hefur í umhverfismatinu lagt fram trúverðuga útreikninga á líklegri dreifingu og styrk helstu útblástursefna sem sýna að styrkur allra efna sem útreikningarnir taka til verði undir viðmiðunarmörkum, bæði við rekstur 1. áfanga og fullbyggðrar verksmiðju.

Meiri óvissa er um losun rokgjarnra lífrænna efna (VOC-efna) og áhrif þeirra á loftgæði, en talið er að VOC-efni hafi orsakað þá lyktarmengun og óþægindi sem íbúar fundu fyrir á fyrri rekstrartíma verksmiðjunnar. Fyrirhugaðar endurbætur á hönnun og rekstri verksmiðjunnar miða að því að takmarka losun VOC-efna og tryggja betri dreifingu þeirra. Þær eru, að mati Skipulagsstofnunar, líklegar til að draga umtalsvert úr losun VOC-efna og bæta dreifingu þeirra við rekstur 1. áfanga samanborið við fyrri rekstrartíma, bæði við stöðugan rekstur ofns og þegar ofn er keyrður á skertu afli. Sama á við fullbyggða verksmiðju.

Í fjölda athugasemda almennings í umhverfismatsferlinu komu fram áhyggjur af áhrifum á lykt og heilsu með vísan til fyrri rekstrartíma verksmiðjunnar. Skipulagsstofnun telur að þótt breytt hönnun verksmiðjunnar og tilhögun starfseminnar eigi að draga verulega úr tíðni og styrk þeirrar mengunar sem valdið getur slíkum áhrifum þá sé líklegt að íbúar í Reykjanesbæ komi til með að verða varir við lykt frá starfseminni og að áhyggjur geti vaknað um heilsufarsáhrif. Í ljósi nálægðar verksmiðjunnar við þéttbýlið í Reykjanesbæ, sem og forsögu rekstrar verksmiðjunnar, er mikilvægt að upplýsingar um loftgæði verði aðgengilegar og vel haldið utan um kvartanir vegna lyktarmengunar og óþæginda. Stakksberg hyggst halda úti vefsíðu með niðurstöðum vöktunar og upplýsingum um frávik. Einnig verður þar hægt að leggja fram nafnlausar ábendingar um lyktarmengun sem fylgt verður eftir með mælingum á VOC-efnum. Jafnframt telur Skipulagsstofnun að vegna óvissu um áhrif vegna losunar VOC-efna eigi eingöngu að veita heimild í starfsleyfi fyrir 1. áfanga verksmiðjunnar, þar til komin er á reynsla á rekstur verksmiðjunnar með breyttum búnaði og verklagi.

Landslag og ásýnd

Þau mannvirki sem þegar hafa risið eru stór iðnaðarmannvirki sem eru áberandi í landi og sjást víða að. Að mati Skipulagsstofnunar hefur hönnun og frágangur mannvirkja og lóðar ekki tekið nægilega mið af þessum aðstæðum. Vanda hefði mátt meira til arkitektúrs og umhverfismótunar. Ljóst er að sýnileiki verksmiðjunnar eykst við byggingu skorsteins í 1. áfanga og enn frekar við byggingu síðari áfanga hennar. Stór iðnaðarmannvirki sem reist eru á opnu landi þar sem sést vítt yfir munu alltaf verða áberandi. Það gerir sérstakar kröfur til þess að vandað sé til allrar hönnunar slíkra mannvirkja og umhverfis þeirra, svo byggingar og önnur mannvirki valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum og sómi sér sem best í landi. Það á sérstaklega við á þessum stað, sem bæði er áberandi frá þjóðbraut erlendra ferðamanna inn í landið og í mikilli nánd við einn af fjölmennari þéttbýlisstöðum landsins. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að lögð verði áhersla á vandaðan arkitektúr og umhverfismótun við endurbætur á þeirri verksmiðju sem þegar er risin og við alla frekari uppbyggingu á lóð hennar. Stofnunin telur mikilvægt að í byggingar- og framkvæmdaleyfum verði vönduð hönnun mannvirkja og lóðar tryggð.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Fullbyggð verksmiðja mun leiða til merkjanlega aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, en áætlað er að rekstur fullbyggðrar verksmiðju með 100.000 tonna ársframleiðslu muni losa sem nemur um 11% af heildarlosun Íslands árið 2019.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um 55% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Það markmið tekur ekki til losunar frá iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, eins og á við um losun frá kísilverksmiðju Stakksbergs. Viðskiptakerfið er rekið sem ein heild á EES-svæðinu og felur í sér markmið um heildarsamdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem fellur undir gildissvið kerfisins.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum er lokaþrep umhverfismatsferlis framkvæmdar og undanfari leyfisveitinga fyrir viðkomandi framkvæmd. Nánari upplýsingar um umhverfismat framkvæmdarinnar er að finna í áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Stakksbergs sem nálgast má hér .