Mál í kynningu


13.8.2013

Auglýsing um tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þann 4. júní, 2013 að auglýsa tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, samkvæmt 31. gr. laga nr. 123/2010, ásamt umhverfisskýrslu, sbr. 7. gr. laga nr. 105/2006. Athugasemdir Skipulagsstofnunar, sbr. 3. mgr. 30 gr., voru teknar til umfjöllunar í borgarráði þann 25. júlí, 2013 ásamt minnisblaði umhverfis- og skipulagssviðs um viðbrögð Reykjavíkurborgar við athugasemdunum.

Nýtt aðalskipulag tekur til tímabilsins 2010-2030 og er endurskoðun á aðalskipulaginu 2001-2024. Endurskoðunin hefur staðið yfir undanfarin ár og hefur falist í margvíslegri greiningarvinnu, mati valkosta og samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Megin breytingar frá gildandi aðalskipulagi felast í:
 

Þéttari og blandaðri byggð. Gert ráð fyrir að um 90% allra nýrra íbúða rísi innan núverandi þéttbýlismarka í stað 50% áður. Lögð er áhersla á að fjölga íbúum á svæðum þar sem mikið framboð starfa er fyrir og fjölga störfum þar sem lítið framboð starfa er fyrir. Settir eru fram ákveðnir skilmálar um eflingu verslunar og þjónustu innan íbúðarhverfa.

Minna landnám og minni landfyllingar. Stefna um þéttari byggð felur í sér að umfang byggingarsvæða fyrir blandaða byggð dregst saman um tæpa 200 ha. Stórar landfyllingar ætlaðar undir blandaða byggð eru m.a. felldar út. Um 80% þéttingarreita eru svæði sem nú þegar eru röskuð og minna en 5% þéttingarreita eru á svæðum sem talin eru hafa útivistargildi. Auk betri landnýtingar íbúðarbyggðar minnkar landnám nýrra atvinnusvæða í útjaðri um 150 ha.

Vistvænni samgöngur. Höfuðáhersla er á styrkingu samgöngukerfa fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur. Gert er ráð fyrir nýjum tengingum sem eingöngu eru ætlaðar vistvænum ferðamátum. Sett er fram markviss bíla- og hjólastæðastefna sem mun ýta undir breyttar ferðavenjur. Stefnan er að draga úr vegalengdum, ferðaþörf og nýta til fullnustu núverandi gatnamannvirki. Sett er fram áætlun um endurhönnun helstu gatna.

Ákveðnari verndun opinna svæða.Skil milli útivistarsvæða og þéttbýlis eru skerpt. Minni útvistarsvæði innan hverfa eru fest í sessi samhliða þéttingu byggðar. Markmiðið er að yfir 90% íbúa Reykjavíkur verði í innan við 300 m göngufjarlægð frá útivistarsvæði.

Húsnæði fyrir alla. Stefna um framboð húsnæðis og búsetukosta grundvallast á samþykktri Húsnæðisstefnu Reykjavíkur. Innan hvers hverfis verði fjölbreytt framboð minni og stærri íbúða í fjölbýli og sérbýli til að tryggja félagslega fjölbreytni innan hverfanna. 25% nýs húsnæðis verði miðaðar við þarfir þeirra sem ekki vilja eða geta lagt mikið fé í eigið húsnæði.

Skýrari kröfur um gæði byggðar. Í aðalskipulaginu eru settar fram sérstakar stefnur um Hæðir húsa, Borgarvernd, Kaupmanninn á horninu, Götuna sem borgarými, Gæði byggðar og Miðborgina sem verða leiðarljós við gerð hverfis- og deiliskipulags í borginni.

Aðalskipulagstillagan er kynnt samhliða breytingum á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, sem nauðsynlegt var að ráðast í vegna endurskoðunar á stefnu aðalskipulagsins. Athugasemdir Skipulagsstofnunar, dagsettar 16. júlí 2013, eru lagðar fram með aðalskipulagstillögunni, ásamt viðbrögðum Reykjavíkurborgar við þeim, dagsett 22. júlí 2013.

Tillagan ásamt umhverfisskýrslu og öðrum fylgigögnum liggur frammi í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8.20-16.15, frá 9. ágúst 2013 til og með 20. september 2013. Tillagan ásamt umhverfisskýrslu er einnig til sýnis á Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 3. hæð. Tillöguna og önnur kynningargögn má nálgast á vefsvæðunum, skipbygg.is og adalskipulag.is

Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til Umhverfis- og skipulagssviðs, Borgartúni 12-14 eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 20. september 2013. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar