Fréttir


15.4.2014

Stefna og starfsáætlun Skipulagsstofnunar 2014-2018

Skipulagsstofnun hefur gefið út  stefnu sína og starfsáætlun fyrir tímabilið 2014-2018, en hún var kynnt umhverfis- og auðlindaráðuneyti í lok síðasta árs. Stefnan og starfsáætlunin er afrakstur stefnumótunarvinnu sem farið var í á haustmánuðum 2013. Skipaður var stýrihópur starfsfólks sem annaðist greiningu og tillögugerð, en allt starfsfólk stofnunarinnar tók einnig virkan þátt í vinnunni. Þá var leitað til samstarfsaðila og viðskiptavina stofnunarinnar um hugmyndir og ábendingar um áherslur í starfinu og það sem helst má styrkja og bæta. Í stefnumótunarvinnunni nutum við aðstoðar Guðfinnu S. Bjarnadóttur, ráðgjafa hjá LC ráðgjöf. Þá var lagt í nokkra vinnu við að leita að góðum „benchmarking“- fyrirmyndum meðal erlendra systurstofnana. Sú leit leiddi okkur í heimsókn til skipulagsráðuneytisins í Skotlandi, sem við höfum ákveðið að horfa sérstaklega til sem samanburðarstofnunar, auk þess sem við munum áfram leita góðra fyrirmynda víða.

Við viljum nota þetta tækifæri og færa þeim sem sendu okkur línu eða tóku þátt í rýnifundum í stefnumótunarvinnunni í haust kærar þakkir fyrir þátttökuna og allar þær góðu ábendingar og hugmyndir sem fram komu.

Í stefnuskjalinu er hlutverk, framtíðarsýn og gildi Skipulagsstofnunar sett fram. Eftir líflegar umræður varð niðurstaðan að velja „sjálfbærni“ sem það gildi sem á að lýsa og vísa okkur í starfinu frá degi til dags. Nú í vor mun starfsfólk Skipulagsstofnunar síðan halda áfram að vinna með sjálfbærnigildið og skýra hvernig það birtist í starfi stofnunarinnar.

Í stefnuskjalinu eru einnig settar niður vörður eða stiklusteinar sem við áformum að hafa náð fyrir árslok 2014, 2016 og 2018. Að endingu er settur fram nánar útfærður listi yfir áformuð verkefni og aðgerðir á yfirstandandi ári og fram á það næsta.

Þessari starfsáætlun er síðan fylgt eftir með nánari  verkefnaáætlun fyrir yfirstandandi starfsár.